Ábyrg notkun gervigreindar og gervigreindarlæsi
Gervigreindin nýtist reyndum lögfræðingum best
„Því meiri þekkingu og reynslu sem lögfræðingur hefur, þeim mun betur mun gervigreindin gagnast honum í störfum.“ Þetta hljómar kannski þversagnarkennt en er það ekki.
Það skýrist af því að lögfræðingur með miklu reynslu og djúpa lögfræðiþekkingu veit hvað skiptir mestu máli við lögfræðilega greiningu; hann stillir forsendunum upp með réttum hætti og veit hvaða spurninga á að spyrja. Slíkur lögfræðingur er líka fljótari að sjá og sannreyna hvort svör gervigreindar eru byggð á réttum grunni, þ.m.t. hvort vísað sé til viðeigandi réttarheimilda og dregnar af þeim réttar lögfræðilegar ályktanir.
Mikilvægi gagnrýnnar hugsunar þegar gervigreind er notuð
Þegar gervigreind er notuð er mikilvægt að beita gagnrýnni hugsun og treysta ekki á svör gervigreindar í blindi. Gervigreindin er ekki fullkomin frekar en fólk. Það á heldur ekki að taka fyrstu svörum gervigreindarinnar sem heilögum sannleik, heldur er sjálfsagt að ýta á gervigreindina eins og þörf krefur til að brjóta mál til mergjar; biðja um nánari rökstuðning, ítarlegri greiningu á gögnum, frekari vísanir til heimilda o.s.frv.
Laganemar ættu að fara varlega í notkun gervigreindar
Það er auðvitað freistandi fyrir laganema að nota gervigreind til að aðstoða sig við námið. Við erum þó þeirrar skoðunar að laganemar í nútíð og framtíð þurfi að mörgu leyti að leggja á sig sömu vinnu og laganemar hafa þurft að gera hingað til, það sé einfaldlega nauðsynlegt til að ná fullnægjandi valdi á lögfræðilegri aðferðafræði og færni í beitingu gagnrýnnar hugsunar.
Ef grunnurinn er ekki góður er hætt við því að gervigreindin nýtist laganemum ekki nægilega vel eftir útskrift af þeim ástæðum sem lýst er að ofan. Við höfum því ekki viljað selja laganemum aðgang að Lagavita að svo stöddu og munum ekki gera það nema í góðu samráði við lagadeildir viðkomandi háskóla.
Gervigreindarlæsi fyrir lögfræðinga
Gervigreindin er ný fyrir flestum lögfræðingum og því er mikilvægt að byggja upp gervigreindarlæsi hjá stéttinni til að hún nýtist þeim sem best í starfi. Í því felst m.a. að lögfræðingar öðlist grundvallarskilning á þeim möguleikum og hættum sem notkun gervigreindar býður upp.
Við höfum nú þegar birt nokkrar færslur í þeirri viðleitni að efla gervigreindarlæsi lögfræðinga og munum halda því áfram næstu vikurnar. Ef fylgjendur okkar vilja að við tökum sérstök efni fyrir er sjálfsagt að verða við því. Hægt er að senda okkur skilaboð eða tölvupóst á lagaviti@lagaviti.is.
Reykjavík, 28. júlí 2025

