top of page

Notkun gervigreindar getur aukið skilvirkni lögfræðinga verulega!

Eins og í mörgum öðrum geirum þá blasir við að gervigreindin getur leitt til tímasparnaðar við lögfræðivinnu, þar sem lögfræðilegir starfshættir hér á landi eru um margt óskilvirkir. Oft fer mikill tími og kostnaður í grunn- og undirbúningsvinnu sem er nauðsynleg, en skilar takmörkuðu virði í sjálfu sér. Lögfræðingar þurfa gjarnan að fara í gegnum mikinn fjölda málsskjala til að stilla upp atvikum máls, greina forsendur og mögulegan ágreining milli aðila og draga fram þau atriði sem máli skipta fyrir úrlausn máls. Þá þarf að finna til allar þær réttarheimildir sem á getur reynt við úrlausnina, greina þær í samræmi við viðurkennda lögfræðilega aðferðafræði og útbúa drög að niðurstöðu sem byggir á lögfræðilegum röksemdum.

Flestir sjá líklega virðið í því að læknar nýti sérþekkingu sína í að sinna sjúklingum í stað þess að eyða tíma sínum í skriffinnsku, því þannig mætti t.d. stytta biðlista. Við hugsum um lögfræðinga með sama hætti og viljum gefa þeim, sem sérfræðingum á sínu sviði, færi á að einbeita sér að virðismeiri vinnu í þágu þeirra sem þeir starfa fyrir. Sem dæmi ættu mál fyrir stjórnvöldum og dómstólum að geta gengið hraðar fyrir sig án þess að það bitni á gæðum úrlausna. Þvert á móti eru frekar líkur á auknum gæðum, þar sem tími lögfræðinganna getur þá að mestu farið í dýpri lögfræðilegar greiningar og sannreyningu á því sem gervigreindin hefur tekið saman.

 

Tækifærin sem gervigreindin býður upp á eru af slíkri stærðargráðu að þau voru hreinlega óhugsandi fyrir örfáum árum. Hún getur t.d. farið yfir gríðarlegt magn gagna á brotabroti af þeim tíma sem manneskja þarf. Það sem skiptir samt mestu máli er að gervigreindin getur unnið mestallt það sem lögfræðingar hafa sjálfir þurft að gera hingað til í sinni grunn- og undirbúningsvinnu. Það er því ekki ofsögum sagt að gervigreindin getur orðið leikbreytir í lögfræðilegum starfsháttum hér á landi ef rétt er staðið að málum.

 

Reykjavík, 16. júlí 2025

lagaviti logo
bottom of page