Gervigreind sem vinnutæki lögfræðinga
Ein af þeim áskorunum sem við hjá Lagavita stöndum frammi fyrir er að útskýra fyrir lögfræðingum þann mun sem er á öllum þeim gervigreindarlausnum sem þeim standa til boða. Það sem gerir okkur erfitt fyrir, er að í fjarska líta þessar lausnir svipaðar út; textabox þar sem notandi slær inn spurningu og fær svo skriflegt svar frá lausninni.
En þetta segir tæpast hálfa söguna því að öllu máli skiptir hvaða vinna fer fram frá spurningu til svars. Lögfræðingar ættu að þekkja þetta ágætlega úr sínum störfum því að oft þurfa þeir að eyða miklum tíma og vinnu á bakvið tjöldin í skjal sem á endanum telur kannski nokkrar blaðsíður.
Til að útskýra þetta betur, er gott að hugsa sér myndrænna dæmi þar sem lögfræðingi og gervigreindarlausnum er skipt út fyrir verktaka og þau vinnutæki sem honum standa til boða fyrir ólík verkefni:
✅ Ef verktakinn er að gróðursetja tré, er líklega nóg að nota skóflu til að grafa holu.
✅ Ef verktakinn er að byggja pall, þá gæti verið gott að nota litla gröfu þegar grunnurinn er grafinn, nota hjólsög þegar spýtur eru sagaðar niður o.s.frv.
✅ Ef verktakinn er að byggja hús, þá er líklega best að vera með stóra gröfu og bor því að það þarf eflaust að grafa djúpt svo að grunnur hússins verði traustur. Svo þarf steypubíl til að steypa upp veggi og svona mætti áfram telja.
Ég er viss um að flest okkur myndu reka upp stór augu ef verktakinn, sem við réðum til að reisa hús, mætti á staðinn með hóp vinnumanna og einu vinnutækin væru skóflur og hakar. Þvert á móti myndum við gera ráð fyrir því að verktakinn notaðist við öflugustu og bestu vinnutæki sem völ væri á til að vinna verkið með skilvirkum hætti og af fagmennsku. Á sama tíma myndu flest okkar líka gera sér grein fyrir því að slík vinnutæki eru dýrari í innkaupum og rekstri en vinnutæki sem ekki eru eins öflug þótt þau geti verið ágæt til síns brúks fyrir ákveðin verkefni.
Lengi vel höfðu lögfræðingar úr takmörkuðum fjölda vinnutækja að velja, en það hefur gjörbreyst með tilkomu gervigreindar. Lögfræðingum gefst nú tækifæri á að leggja áherslu á hlutverk sín sem „arkitektar“, „verkstjórar“ og „úttektaraðilar“ lögfræðivinnu og geta falið gervigreindinni aðra virðisminni þætti. Slík nálgun getur leitt til verulegrar skilvirkni í störfum lögfræðinga og gefur þeim færi á að nýta tímann í virðismeiri vinnu og ráðast í stærri og flóknari verkefni.
Með framangreint dæmi í huga mættu lögfræðingar velta þessari spurningu fyrir sér: Er betra fyrir mig að nota „skóflu“, „haka“ og/eða „gröfu“ og gera svo allt í höndunum sem þessi vinnutæki ráða ekki við eða á ég að fara í „stórvirka vinnuvél“, sem verður að því vinnutæki sem ég þarf hverju sinni, eins konar „altmuglig-maskine“?
Fyrir mér er svarið augljóst.
Tómas Eiríksson, 13. október 2025

