Gervigreindarlausnir fyrir lögfræðinga eru ekki allar eins!
Við höfum orðið varir við ákveðna upplýsingaóreiðu á markaðnum þegar kemur að gervigreindarlausnum fyrir lögfræðinga. Af umræðunni mætti ætla að allar þessar lausnir væru sambærilegar, en þær eru það svo sannarlega ekki.
Við tókum því saman lista af spurningum sem við teljum vert fyrir lögfræðinga að hafa í huga þegar ólíkar lausnir eru metnar:
Eðli
Skilar lausnin heildstæðum svörum um tiltekið efni sem byggja á tilgreindum heimildum (eins og ChatGPT) eða er lausnin líkari leitarvél sem skilar samantekt á heimildum (eins og Google)?
Gæði
Beitir lausnin réttri lögfræðilegri aðferðafræði? Er byggt á og vísað til allra viðeigandi heimilda? Eru vísanir til heimilda réttar eða eru þær í einhverjum tilvikum tilbúningur? Eru réttar ályktanir dregnar af þeim heimildum sem vísað er til? Hversu auðvelt er að sannreyna þær röksemdir sem teflt er fram? Er hægt að eiga vitrænar samræður við lausnina um svörin?
Réttarheimildir
Hvaða heimildum hefur lausnin aðgang að? Eru svör sótt á netið eða er eingöngu byggt á gögnum í lokuðum gagnagrunni?
Greiningar
Er lausnin mjög afgerandi í svörum eða gerir hún þér grein fyrir öðrum mögulega tækum lögfræðilegum niðurstöðum?
Gæðaprófanir
Leggur lausnin mat á eigin greiningar? Er mögulegum veikleikum svara lausnarinnar flaggað (sem gætu þá t.d. kallað á frekari spurningar og/eða rannsóknir)?
Tungumál
Eru svör lausnarinnar á góðri íslensku? Er hægt að spyrja og/eða biðja um svör á öðrum tungumálum? Er hægt að nota þann texta sem lausnin birtir án mikilla lagfæringa?
Notendaupplifun
Er lausnin aðgengileg og þægileg í notkun? Geturðu notað lausnina í því vinnuumhverfi sem þú kýst?
Öryggi
Er lausnin og/eða undirliggjandi mállíkön þjálfuð af þeim upplýsingum sem þú lætur henni í té? Hvar og hvernig eru upplýsingarnar þínar vistaðar? Hafa öryggissérfræðingar þínir staðfest öryggi lausnarinnar?
Verð
Hvernig er lausnin verðlögð í samanburði við aðrar lausnir? Skilar lausnin þér meira virði en aðrar lausnir (t.d. leiðir til meiri vinnusparnaðar og/eða skilar betri úrlausnum)?
Við prófun á ólíkum gervigreindarlausnum ráðleggjum við lögfræðingum að taka fyrir svið sem þeir þekkja mjög vel því þá er auðvelt að sannreyna virði þeirra hratt og örugglega, þ.m.t. gæði og aðra mismunandi eiginleika.
Hægt er að skrá sig í fría prufuáskrift að Beta-prófanaútgáfu Lagavita hér á heimasíðunni.
Reykjavík, 31. júlí 2025

