Gervigreindin í heimi lögfræðinnar
Á næstu dögum og vikum ætlum við hjá Lagavita að velta fyrir okkur vegferðinni framundan í heimi gervigreindar og lögfræði, rýna í hin gríðarlegu tækifæri sem felast í hagnýtingu gervigreindar í fræðigrein sem krefst mikillar nákvæmni og áreiðanleika. Við ætlum að skoða hætturnar, áskoranirnar sem þarf að leysa og hvað þarf að gerast svo tæknin skili betri, áreiðanlegri og skilvirkari lögfræðistörfum.
----------
Gervigreindin í heimi lögfræðinnar
Óhætt er að segja að lögfræðiheimurinn standi á tímamótum. Gervigreindarlausnir eru þar að hefja innreið sína líkt og í öðrum geirum samfélagsins og tækifærin eru gríðarleg.
Í gegnum tíðina hafa lögfræðingar þurft að eyða talsverðum tíma í grunn- og undirbúningsvinnu, en með aðstoð gervigreindar er nú hægt að finna til og leggja mat á gríðarlegt magn upplýsinga, þ.m.t. málsgagna, réttarheimilda og annarra upplýsinga sem lögfræðingar nýta við störf sín, á margfalt skemmri tíma en áður.
Þá getur gervigreindin líka nýst við greiningu á málsatvikum og hvers kyns lögfræðilegum álitaefnum og skilað röksemdum og drögum að úrlausnum á örskotsstundu. Gervigreindartæknin getur ekki síður veitt stopulu minni, ónákvæmni og hlutdrægni mannshugans mikilvægt aðhald því að vel þjálfuð gervigreindarmódel hafa aðgang að gríðarlegu magni upplýsinga og geta verið afar nákvæm en um leið gagnrýnin á eigin röksemdafærslu og annarra.
Á hinn bóginn geta þessir miklu kostir gervigreindarinnar skapað hættu á að lögfræðingar fari að treysta of mikið á tæknina í blindni eins og dæmin sanna, t.d. þar sem lögmenn í Bandaríkjunum hafa ranglega vísað til dómafordæma sem gervigreindin hefur búið til: https://www.reuters.com/.../ai-hallucinations-court.../
Hafandi mögulegar hættur í huga væri auðveldast fyrir lögfræðinga að stinga höfðinu í sandinn og vona að gervigreindin líði undir lok. Það er hins vegar harla ólíklegt að það gerist. Líklegra er að lögfræðingar sem ekki hagnýta sér gervigreind í störfum sínum úreldist, ekki eingöngu vegna óskilvirkni, heldur líka vegna þess að möguleikar þeirra á að kasta út víðu neti í leit að viðeigandi upplýsingum eru miklum mun takmarkaðri og djúpar lögfræðilegar greiningar þeim mun erfiðari viðureignar.
Að því sögðu er rétt að undirstrika að hlutverk lögfræðingsins verður áfram jafn mikilvægt. Hann þarf að stilla upp forsendunum með réttum hætti, rýna þær röksemdir og heimildir sem gervigreindin setur fram og byggir á, leiða gervigreindina áfram með athugasemdum og gagnrýnum spurningum og beita eigin dómgreind við endanlega úrlausn mála – því það er og verður lögfræðingurinn sjálfur sem þarf að svara fyrir og bera endanlega ábyrgð á því sem hann gerir með aðstoð gervigreindar.
Reykjavík, 10. júlí 2025

