Notkun gervigreindar getur stuðlað að vandaðri lögfræðilegum úrlausnum!
Eins og við nefndum í síðustu grein, þá blasir við að notkun gervigreindar getur aukið skilvirkni lögfræðinga verulega. Það sem er kannski ekki eins augljóst er að gervigreindin getur líka stuðlað að vandaðri lögfræðilegum úrlausnum.
Þótt mannshugurinn sé magnað fyrirbæri og skáki jafnvel bestu tölvum á mörgum sviðum þá á hann það til að vera ónákvæmur, hægvirkur og hlutdrægur.
Í heimi, þar sem regluverkið verður sífellt flóknara og réttarheimildir víða að finna, er hætt við því að lögfræðingum sjáist yfir atriði sem máli geta skipt við lögfræðilega greiningu. Með tímanum hafa málsgögn líka almennt vaxið að umfangi og yfirferð þeirra orðið tímafrekari. Þess eru dæmi að lögmenn hafi hreinlega ekki komist yfir að lesa öll málsgögn eins og Gestur Jónsson, hæstaréttarlögmaður, hefur bent á: https://www.visir.is/g/20252729012d/varad-vid-em-baetti-ser-staks-sak-soknara
Með réttri aðferðafræði er unnt að nýta gervigreind til að bregðast við þessum áskorunum. Gervigreindin getur unnið úr gríðarlegu magni gagna á stuttum tíma og um leið aukið nákvæmni í greiningu réttarheimilda og málsgagna verulega. Það skýrist af því að hún vinnur markvisst úr öllum fyrirliggjandi gögnum án þess að þreytast og heldur sig á réttri braut ef fyrirmælin eru skýr og verkefnið vel afmarkað.
Hættan á að gervigreindin byggi greiningu sína á hlutdrægni eða fyrirframgefnum hugmyndum er óveruleg, að því tilskildu að úrvinnsla hennar takmarkist við þau gögn sem henni er falið að greina. Við þær aðstæður getur gervigreindin ekki aðeins stuðlað að vandaðri lögfræðilegri greiningu, heldur einnig ýtt undir jafnræði við úrlausn sambærilegra mála og þannig eflt réttaröryggi.
Reykjavík, 21. júlí 2025

